Útreikningur húsnæðisbóta samkvæmt reiknivélinni byggir á þeim forsendum sem þú gafst upp og telst ekki bindandi ákvörðun um húsnæðisbætur. Útreikningur miðast við greiðslur húsnæðisbóta fyrir heilt almanaksár.
Fjöldi heimilismanna, tekjur, eignir og greiðsluþátttaka í húsnæðiskostnaði hafa áhrif á fjárhæð húsnæðisbóta.
Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta taka mið af fjölda heimilismanna óháð aldri. Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta á ári eru eftirfarandi:
| Fjöldi heimilismanna | Grunnfjárhæð húsnæðisbóta á ári |
|---|---|
| 1 | 389.520 |
| 2 | 515.172 |
| 3 | 603.132 |
| 4 eða fleiri | 653.388 |
Með heimilismönnum er átt við alla þá sem búsettir eru í hinu leigða íbúðarhúsnæði.
Tekjur, eignir og greiðsluþátttaka í húsnæðiskostnaði hafa áhrif til lækkunar á grunnfjárhæðum húsnæðisbóta.
Tekjur hafa áhrif til lækkunar á húsnæðisbótum. Grunnfjárhæðir lækka sem nemur 9% af samanlögðum árstekjum heimilismanna, 18 ára og eldri, umfram tiltekin frítekjumörk sem taka mið af fjölda heimilismanna óháð aldri. Með tekjum er átt við allar tekjur heimilismanna, 18 ára og eldri, þar með taldar fjármagnstekjur, skv. II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til frádráttar.
Frítekjumörk húsnæðisbóta eru eftirfarandi
| Fjöldi heimilismanna | Frítekjumörk miðað við árstekjur |
|---|---|
| 1 | 3.885.000 |
| 2 | 5.138.226 |
| 3 | 6.015.484 |
| 4 eða fleiri | 6.516.774 |
Húsnæðisbætur lækka sem nemur hlutfalli af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri, sem fara umfram 6.500.000 kr. uns þær falla niður við 60% hærri fjárhæð. Ef samanlagðar eignir heimilismanna nema meira en 10.400.000 kr. falla húsnæðisbætur því niður að fullu.
Með eignum er átt við allar eignir heimilismanna, 18 ára og eldri, að frádregnum skuldum. Miðað er við eignir í lok þess almanaksárs þegar greiðslur húsnæðisbóta stóðu yfir.
Húsnæðisbætur geta aldrei numið hærri fjárhæð en 75% af húsnæðiskostnaði vegna íbúðarhúsnæðis.
Með húsnæðiskostnaði er átt við þann hluta leigufjárhæðar sem greiddur er fyrir leiguafnot af húsnæði. Aðrar greiðslur og kostnaðarþættir sem leigjanda ber að greiða samkvæmt samningi eða húsaleigulögum fyrir hita, vatn, rafmagn, hússjóð, viðhald o.fl., teljast ekki til húsnæðiskostnaðar.
Þessi síða notar vafrakökur
Lesa meira